Samkvæmt reglunum þarf ökumaður, sem er með bráðabirgðaskírteini, að fara í akstursmat áður en hann fær fullnaðarskírteini.

Endurnýjun bráðabirgðaskírteinis - Útgáfa fullnaðarskírteinis
Bráðabirgðaskírteini gildir í þrjú ár. Þann gildistíma má stytta. Ökumaður getur fengið fullnaðarskírteini, hafi hann haft bráðabirgðaskírteini samfellt í 12 mánuði og ekki á þeim tíma fengið punkta í punktakerfi vegna umferðarlagabrota og farið í akstursmat. Vilji ökumaðurinn ekki nýta sér þessa heimild eða fullnægi hann ekki skilyrðunum, gildir bráðabirgðaskírteinið áfram þar til það rennur út eftir þrjú ár frá útgáfudegi.

Að þeim tíma liðnum fær ökumaðurinn fullnaðarskírteini, fullnægi hann áður nefndum skilyrðum. Fullnægi hann þeim hins vegar ekki, fær hann útgefið bráðabirgðaskírteini á ný til þriggja ára.

Með því að heimila ökumönnum að fá fullnaðarskírteini eftir eitt ár í staðinn fyrir þrjú, eftir áfallalausan akstursferil og að undangengnu akstursmati, er verið að umbuna þeim sem hafa staðið sig vel í umferðinni. Það hefur jafnframt þau hvetjandi áhrif á unga ökumenn að vanda sig við akstur. Sá sem hagar sér vel í umferðinni og brýtur ekki af sér getur sem sagt fengið fullnaðarskírteini ári fyrr en ella.


Akstursmat
Í akstursmati felst að kannað er hvort mat ökumanns á  eigin aksturshæfni, akstursháttum og öryggi í umferðinni er í samræmi við raunverulega getu hans. Markmið akstursmats er að ökumaðurinn geri sér grein fyrir hæfni sinni og getu í umferðinni með tilliti til umferðaröryggis.

Kostnaður

Akstursmat tekið á eigin bíl kostar 8000 kr.

Akstursmat tekið á ökukennslubíl 8500 kr.

Valur Örn Arnarson 2007 © Allur réttur áskilinn
Netfang: valur@okuskirteini.is